Fara í efni

Stóri plokkdagurinn 2024

Tómstundastarf

Stóri plokkdagurinn verður haldinn með pompi og prakt um allt land sunnudaginn 28. apríl næstkomandi.

Það er Rótarýhreyfingin á Íslandi sem skipuleggur daginn með aðstoð og atfylgi góðra bakhjarla. Markmið Rótarýhreyfingarinnar er að dagurinn sé ætlaður öllum sem vilja skipuleggja hreinsunarátak á þeim degi, eða eftir atvikum öðrum degi á svipuðum tíma. Þannig er öllum heimilt að nota merki dagsins og myndefni tengt honum til kynningar á verkefnum tengdum plokki og umhverfishreinsun.

Á næstu vikum birtist uppfært efni á síðunni www.plokk.is og þá verða bakhjarlar Stóra plokkdagsins og samstarfið kynnt betur.

 

Allir mega stofna viðburði á Stóra Plokkdaginn á samfélagsmiðlum, tengja þá við Plokk á Íslandi, fá merkingar frá Plokk á Íslandi.

Sveitafélög landsins auglýsa sína viðburði og hvernig hægt er að bera sig að með frágang, flokkun eða urðun á hverjum stað fyrir sig.

HVERNIG SKIPULEGG ÉG PLOKK VIÐBURÐ?

Ef við fylgjum þessu leiðbeiningum þá eiga allir að finna sig vel í þessu þrátt fyrir að hafa aldrei gert þetta áður. Öll hvatning og miðlun á samfélagsmiðlum er ekki mont heldur þvert á móti hvatning til annarra að láta sitt ekki eftir liggja.

HVERNIG?
• Velur svæði sem þú vilt elska. Stofnar viðburð í eigin nafni og skýrir hann “PLOKK-eitthvað" deilir honum inn á Plokk á Íslandi á Facebook til að lokka til þín fleiri plokkara. Deildu viðburðinum á bæjar síðuna þína eða hverfa síðuna eða hvoru tveggja. Muna að taka myndir á viðburðinum og vera dugleg að deila á samfélagsmiðla og merkja #plokk #plokk2024
• Þau ykkar sem eruð dugleg á Instagram og Facebook getið farið í valmynd og farið í GIF og skrifað PLOKK þá koma upp GIF merki fyrir Stóra plokkdaginn sem gaman er að setja inn á myndirnar um leið og við merkjum með myllumerkjunum#.

HVAÐ ÞARF ÉG?
• Glæra plastpoka - best er að hafa tvo poka, setja plastið í einn og allt annað í hinn.
• Snæri eða bensli til að loka plastpokunum svo ekkert fjúki úr þeim þegar búið er að fylla þá.
• Plokktangir eru ágætar, ekki nauðsynlegar. Því ódýrari, því betri, segi ég af reynslu. Því þær sem eru dýrari eru efnismeiri og þá þyngri.

HVERNIG ERUM VIÐ ÚTBÚIN:
• Klæðum okkur eftir aðstæðum. Hanskar eru ákjósanlegir. Öryggisvesti eru ákjósanleg en skilda ef við erum að plokka meðfram vegum eða við götur.

HVERNIG VELJUM VIÐ STAÐ?
• Það er ekki ákjósanlegt að vera í kringum stór umferðarmannvirki eins og meðfram Reykjanesbrautinni og stóru umferðaræðunum í borginni nema fólk sé sérstaklega útbúið m.a. í endurskinsvestum osfrv. Og þetta eru ekki staðir fyrir börn.
• Í kringum þjónustukjarna er alltaf mikið plast og umbúðarusl. Þjónustukjarnarnir eru þar sem dagvöruverslanir, skyndibitastaðir, kaffihús, bensínstöðvar og ísbúðir er að finna. Það er iðulega mikið rusl sem fýkur frá ruslatunnum og ruslagámum við þessi svæði.
• Þá eru öruggustu svæðin líklega svæði í kringum íþróttavelli, skólalóðir og opin svæði. Girðingar í kringum þau taka oft drjúgt til sín.
• En við plokkum allstaðar þar sem þarf að plokka

FRÁGANGUR Á PLOKKI
• Bindum vel fyrir pokana og skorðum þá þannig að ekki fjúki upp úr þeim og þeir fjúki ekki sjálfir.
• Förum með á þjónustustöðvar Sorpu eða annað þar sem þið vitið að tekið er á móti plokki, hvort sem það er skipulagt af Rótarý, sveitarfélaginu ykkar eða af öðrum flottum einstaklingum eða hópum.

SORPA Á PLOKKDAGINN:
• Endurvinnslustöðvar Sorpu taka fagnandi á móti öllum plokkurum. Það er opið til klukkan 16:00 á sjálfan Plokkdaginn.
• Lokað er 1. maí en opnar aftur 2. maí. Þau hvetja okkur til að setja plastið í sérpoka. Þannig getum við sameinast um að endurvinna plastið.
• Sveitarfélög, fyrirtæki og félagasamtök sem styðja almenna plokkara með því að leggja til söfnunarsvæði og/eða gáma mega koma með afraksturinn til Sorpu án þess að borga urðunargjald. Gámarnir þurfa að vera vel merktir PLOKK og í þeim má bara vera rusl í glærum pokum. Virðum þessar reglur og þá gengur aflestingin vel.

HVERS GET ÉG VÆNST AF SVEITARFÉLAGINU MÍNU?
• Sveitarfélög geta oft leiðbeint með svæði þar sem gott væri að plokka.
• Sveitarfélög hafa oft getað skaffað glæra poka og jafnvel plokktangir .
• Ef þú ert að skipuleggja stórt plokkverkefni hafa sveitarfélög oft komið með opna gáma til að setja plokkið í. Þar sem því er ekki komið við hafa sveitarfélög oft sótt afrakstur til plokkara hvort heldur sem það eru 3 eða 30 pokar.

Stóri Plokkdagurinn 28. apríl, vertu með!

Rúmlega sjöþúsund og áttahundruð manns tilheyra samfélaginu Plokk á Íslandi á facebook og þessi hópur er kominn á fullt í að plokka í sínu nær umhverfi. Eftir vindasaman vetur er plast og rusl útum allt í kringum þéttbýli og áríðandi að það komist úr umhverfinu áður en það hverfur á haf út eða grefst í náttúruna.

Flestir sem tilheyra Plokk síðunni plokka nánast allt árið um kring en Plokk á Íslandi skipuleggur Stóra-plokkdaginn einu sinni á ári. Hann er hugsaður sem upphaf plokk tímabilsins, vitundarvakning og hvatning. Tímasetningin hentar vel því þá er vorið komið, snjór horfin úr byggð og plast og pappírs rusl býður eftir því að verða bjargað og sent á viðeigandi stofnun.

Langflest sveitarfélög landsins taka þátt og Plokk á Íslandi er með sjálfboðaliða um allt land sem eftir fremsta megni að stýra og styðja þá sem vilja taka þátt en fegurðin í plokkinu fellst einna helst í því hversu einfalt og sjálfbært það er í raun og veru að taka þátt. Því fylgir góð og heilbrigð hreyfing, útivera og félagskapur.

Plokk á Íslandi hvetur fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og einstaklinga að láta plokkið sig varða, taka þátt og hvetja aðra til þátttöku.

Allir mega stofna viðburði á Stóra Plokkdaginn á samfélagsmiðlum, tengja þá við Plokk á Íslandi, fá merkingar frá Plokk á Íslandi. Hægt er að nálgast merki Plokk dagsins á plokk.is og er öllum heimilt að nota það sér að kostnaðarlausu. Sveitafélög landsins auglýsa sína viðburði og hvernig hægt er að bera sig að með frágang, flokkun eða urðun á hverjum stað fyrir sig.

Á facebook svæðinu Plokk á Íslandi má gjarnan deila sigrum okkar á ruslinu með jákvæðum fréttum af árangri baráttunnar allt árið um kring. Vertu með á stóra plokk deginum 28. apríl nk

Einar Bárðarson, 618 9000