Fara í efni

Myndarlegur styrkur til að bæta aðgengi að Kúatjörn (oft nefnd Kúalaug).

27.04.2024
Fréttir
Kúalaugin er þar sem hringurinn er á miðri mynd
Kúalaugin er þar sem hringurinn er á miðri mynd

Lilja Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, hef­ur út­hlutað 538,7 millj­ón­um króna úr Fram­kvæmda­sjóði ferðamannastaða.

Þriðji hæsti styrk­ur­inn, rúm­ar 52 millj­ón­ir króna, fer í upp­bygg­ingu án­ing­arstaðar með aðgengi fyr­ir alla við Kúa­tjörn á Reyk­hólum.

Verkefni fellst í byggingu bílastæðis með aðgengi fyrir alla ásamt áningastað með borðum og bekkjum, gerð göngustíga að Kúatjörn og í kringum hana, bæði úr möl og timbri. Timburstígur mun liggja þvert yfir laugina, þar verður bryggja þar sem hægt verður að setjast niður og dýfa fótum ofan í grunnt ker í lauginni. Upplýsingarskilti verður komið fyrir.

Markmið verkefnisins er að bæta aðstöðu við Kúatjörn í Reykhólahreppi, með því að reisa trépall, trébryggju og leggja bílastæði, auk endurgerðar á hleðslum, hringstígs um laugina og tengistíga að nálægum gróðurhúsum. Um er að ræða verkefni sem eykur fjölbreytni í áfangastöðum á fremur köldu svæði ef litið er til dreifingar ferðamanna um landið. Undanfari verkefnisins hlaut styrk árið 2023 og er tillaga gerð að því að samþykkja og fjármagna þá hönnun sem lögð er til. Í umsóknargögnum kemur fram að ekki séu áform um gjaldtöku á staðnum.

Kúatjörn er nefnd svo vegna þess að þangað var sótt vatn til að brynna kúm á Reykhólum. Það þótti ágætt að gefa þeim volgt vatn, einnig var erfiðara að ná í kalt vatn. Þarna var hlaðin sundlaug úr torfi og var þar fyrsti vísir að sundkennslu á Reykhólum.